Smá pæling

Er búinn að vera að skoða nokkrar bloggfærslur um þessa frétt og í framhaldi af því þá er ég kominn með eina tilgátu.  Ég hef náttúrulega ekki snefil af sönnunum þannig að þetta er bara tilgáta og kannski hugsanlega skot út í myrkrið ...  en tilgátan hljómar einhvernvegin svona:

Þeir sem eru á móti þessum skattahækkunum eru þeir sem koma til með að borga skattinn þegar/ef hann verður settur á og þeir sem finnst þetta vera afskaplega gott mál eru þeir sem munu halda áfram að borga sín 37%.

Þetta er auðvitað stóryrt og ég veit það að þetta er auðvitað alhæfing.  Ég veit það meira að segja að þetta er röng alhæfing en hún fær nú samt að vera óbreytt.

Það hefur einhverstaðar komið fram að í norrænu samhengi (Svíþjóð og Danmörk þá kannski eina helst) þá er 47% skattur ekkert svo voðalega hár.  Það er örugglega rétt en hafa ber í huga hvað þeir eru að fá fyrir skattinn sinn og hvað við erum að fá fyrir skattinn okkar.  Þarna úti eru menn að fá þjónustu fyrir skattinn, hérna væri frekar hægt að tala um að þjónustan minnki í samræmi við skattahækkanirnar.

Nú er ég svo heppinn að ég er í það góðri vinnu að ég borga hátekjuskatt í dag og er það vel.  Hef aldrei séð eftir einni einustu krónu sem ég hef borgað í ríkiskassann hvort sem það er með beinum eða óbeinum sköttum.  Þó skal það viðurkennast að ég er í dag ekkert sérstaklega kátur.  Ekki út af því að ég þarf að borga skatt heldur afhverju ég er að borga meiri skatt núna en fyrir ári eða svo.  Ég fer hins vegar ekki að falla í þá gryfju að kenna bara sjálfstæðisflokknum um allt.  Veit að það er miklu meira en bara hann sem á sök á þessu.  Einkavæðingarferlið allt, eftirlitið, pólitíkin, stjórnendur fyrirtækjanna og pottþétt eitthvað meira.  Þetta er það sem byrjaði þetta allt og svo kom meira til svo sem eins og alheimslausafjárkreppa.

Einnig fer ég ekkert að blóta Steingrími í sand og ösku þótt hann sé að reyfa þessar hugmyndir.  Kannski heldur hann að hann sé að gera það sem hann getur til að redda skerinu og ef hann er að gera sitt besta þá er ég enginn maður til að skamma hann fyrir það.  Það er hins vegar langur vegur í að ég sé eitthvað sammála honum.  Ég veit það þó að ég er ekki með lausnina.  Gæti hugsanlega komið með einhver drög að henni en ég er voðalega lítið inn í hagfræði þannig að ég læt þá sem þykjast hafa eitthvað vit á hennni um það.  Ég segji svo bara mína skoðun í tilkomandi kosningum, hvenær sem þær nú verða.


mbl.is 47% skattur á launatekjur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Viðar

Helvíti er ánægjulegt að sjá jákvætt viðhorf frá manni í hópi þeirra sem koma til með að borga 47%. Jákvætt viðhorf á Moggablogginu er reyndar líka bara yfir höfuð gaman að sjá, enda sjaldgæft mjög.

Sjálfur er ég með lægstu mögulegu tekjur og skrifast það á menntunarleysi. Það breytir því ekki að vinnuframlag mitt er nauðsynlegt fyrir samfélagið (umönnunarstörf) og það er frekar skítt að sjá færslur um það að það eigi ekki að "verðlauna" þá lægst launuðu fyrir menntunarleysið. Þeir eru allir að taka út sína "refsingu" með því að vinna á ömurlegum launum.

Góðar stundir.

Haukur Viðar, 10.11.2009 kl. 10:42

2 Smámynd: Valur Hafsteinsson

Algerlega nauðsynlegt að hafa fólk í leikskólum og grunnskólum.  Og sannarlega rétt að þetta eru skammarlega lágt launuð störf.  Afskaplega skrítið að borga þeim lámarkslaun sem bera mikla ábyrgð.  Og það er engin smá ábyrgð fólgin í því að sjá um lítil börn og koma þeim til menntunar.  Leit nú á bloggið þitt og sá að þú ert að vinna á leikskóla, en ég þykist vita að þar fer vissulega einhver kennsla fram þótt hún sé annars eðlis en þegar í grunnskólann er komið.

Valur Hafsteinsson, 10.11.2009 kl. 16:54

3 identicon

Laun ráðast sjaldnast á menntun heldur miklu frekar framboði og eftirspurn. Menntun er afleiða í þessu ekki forsenda, hærri menntun þýðir einfaldlega að færri eru færir að vinna þau störf sem krefjast menntunar og þar með geta þeir krafið hærri laun fyrir verk sín. Það geta allir annast börn eða flestir skulum við segja og því auðveldara að fá fólk til vinnu í þau störf og því hægt að greiða þeim lægri laun. Ef það væru 100 þúsund læknar í landinu væru læknar með miklu lægri laun burt séð frá ábyrgð. Svona er bara lífið Haukur minn, sanngjarnt eða ekki.

Hagfræðibakgrunnur minn segir mér að hærri skattar skil sér í minni sparnaði og því minni fjárfestingu til atvinnufyrirtækja og um leið minni verðmætasköpun. Minni verðmætasköpun þýðir bara minna til skiptanna fyrir alla.

Landið (IP-tala skráð) 10.11.2009 kl. 18:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband